Tillögur birtast þegar slegið er inn í leitarreitinn. Notaðu örvarnar upp og niður við yfirferð. Ýttu á „enter“ til að velja. Ef nokkur orð eru valin saman eru þau notuð sem leitarstrengur. Ef tillagan er hlekkur opnast sú síða í vafranum.
Samfélagsreglur

Reglur um óviðráðanlegar aðstæður

Við erum að uppfæra reglurnar Nýju reglurnar birtast efst á þessari síðu og gilda um allar bókanir sem hefjast 6. júní 2024 eða síðar, nema að Airbnb tilkynni notendum um annað. Gildandi reglur birtast neðst á síðunni og eiga við um eldri bókanir.

Gildistökudagur: 6. júní 2024

Yfirlit

Afbókunarregla skráninga gildir almennt um afbókanir og endurgreiðslur fyrir bókanir á Airbnb. Í þeim undantekningartilvikum aðatburðir sem valda stórtækum röskunum komi í veg fyrir eða banni með lögum að hægt sé að standa við bókun geta reglurnar um óviðráðanlegar aðstæður („reglurnar“) átt við. Við aðstæður þar sem reglurnar eiga við geta gestir afbókað gegn fullri endurgreiðslu, ferðainneign og/eða öðru slíku, óháð gildandi afbókunarreglu og gestgjafar geta afbókað án gjalda eða annarra neikvæðra afleiðinga, en afbókaðar dagsetningar verða teknar frá í dagatali skráningarinnar.

Reglurnar gilda bæði um bókanir á gistingu og upplifunum og þær gilda um yfirstandandi bókanir eða bókanir þar sem innritun fer fram á gildistökudegi eða síðar, nema að Airbnb hafi tilkynnt notendum um annað. Reglurnar um óviðráðanlegar aðstæður eru ekki vátrygging.

Atburðir sem falla undir reglurnar

Eftirfarandi atburðir falla undir reglurnar, að því tilskildu að þeir hafi áhrif á svæðið þar sem bókunin er staðsett, eigi sér stað eftir að gengið er frá bókun og komi í veg fyrir eða banni samkvæmt lögum að hægt sé að standa við bókunina (skilgreindir í þessari reglu sem „atburðir“):

Yfirlýst neyðarástand og faraldrar sem varða lýðheilsu. Faraldrar, heimsfaraldrar og neyðarástand fyrir lýðheilsu sem stjórnvöld lýsa yfir. Þetta á ekki við um sjúkdóma sem eru landlægir (eins og flensuna) eða algengir á staðnum (eins og t.d. mýrakalda í Taílandi). COVID-19 fellur ekki undir reglurnar um óviðráðanlegar aðstæður.

Ferðatakmarkanir stjórnvalda. Skyldubundnar takmarkanir sem opinber stofnun setur, svo sem fyrirmæli um rýmingu. Þetta nær ekki yfir ferðaráðleggingar og aðra opinbera leiðsögn sem er ekki bindandi.

Hernaðaraðgerðir og önnur átök. Stríðsárásir, átök, innrásir, borgarastyrjaldir, hryðjuverkaárásir, sprengingar, sprengjuárásir, uppþot, uppreisnir og óeirðir.

Stórfelldar bilanir í veitukerfum. Langvarandi bilanir í hitaveitukerfi, vatnsveitu og rafmagnsveitu sem hafa áhrif á meirihluta heimila á tilteknu svæði.

Náttúruhamfarir. Þar á meðal eru náttúruhamfarir og önnur hættuleg veðurfyrirbrigði. Veðurfyrirbæri og náttúruleg fyrirbrigði sem eru nógu algeng til að teljast fyrirsjáanleg, til dæmis eiga reglurnar aðeins við um fellibyli á fellibyljatímabilinu í Flórída að því tilskildu að slíkt leiði til annars atburðar sem fellur einnig undir reglurnar, svo sem opinberra rýmingaraðgerða eða stórtækra bilana í veitukerfi.

Hvað gerist ef bókun verður fyrir áhrifum af atburði sem reglurnar ná yfir?

Þegar atburður sem veldur stórtækum röskunum á sér stað metum við stöðuna með tilliti til þess hvort reglurnar um óviðráðanlegar aðstæður eigi við. Sé niðurstaðan sú að þær eigi við, virkjum við reglurnar fyrir viðkomandi svæði og tímaramma sem við gerum ráð fyrir að atburðurinn eigi eftir að koma í veg fyrir með lögum eða öðrum hætti að hægt sé að standa við bókanir. Bókanir utan skilgreinds tímaramma falla hugsanlega ekki undir reglurnar en geti gestgjafar ekki staðið við bókun geta þeir eftir sem áður afbókað án neikvæðra afleiðinga.. Við fylgjumst stöðugt með aðstæðum og aðlögum reglurnar með tilliti til breytinga. Teljir þú að reglurnar eigi við um bókun þína skaltu hafa samband við okkur til að kanna málið nánar.

Það sem fellur ekki undir reglurnar

Okkur er ljóst að annars konar aðstæður sem þú hefur ekki stjórn á geti raskað áætlunum þínum. Bókunin fellur áfram undir afbókunarreglu gestgjafans undir öllum kringumstæðum sem ekki eru taldar upp hér að ofan.

Dæmi um algeng tilvik sem falla ekki undir þessar reglur eru meðal annars:

  • Atburðir sem hafa áhrif á ferðagetu gests en ekki staðinn þar sem bókunin á sér stað
  • Óvænt slys eða veikindi
  • Opinberar skyldur svo sem seta í kviðdómi eða mæting fyrir dómara
  • Óbindandi ferðaráðleggingar eða aðrar opinberar leiðbeiningar sem eru ekki lögbundnar eða ferðabann
  • Aflýsing eða breyting á viðburði sem bókað var í tengslum við
  • Samgönguraskanir sem tengjast ekki tilfelli sem fellur undir reglurnar, svo sem gjaldþrot flugfélags, samgönguverkföll eða vegalokanir vegna viðhalds

Falli bókanir ekki undir þessar reglur hvetjum við gesti og gestgjafa til að komast að sameiginlegu samkomulagi eins og endurgreiðslu að fullu eða að hluta til eða breytingu á bókunardagsetningum. Það er undir gestgjafanum komið hvort viðkomandi endurgreiði meira en afbókunarreglan gerir ráð fyrir. Airbnb á hvorki hlut í, né ábyrgist slíkar endurgreiðslur.

Það sem reglurnar fela í sér fyrir gestgjafa

Ef bókun fellur undir reglurnar um óviðráðanlegar aðstæður geta gestgjafar afbókað án gjalda eða annarra neikvæðra afleiðinga. Ef gestgjafi afbókar samkvæmt reglunum verða afbókaðar dagsetningar teknar frá í dagatali skráningarinnar. Þegar afbókun er gerð samkvæmt reglunum fær gestgjafi ekki útborgað fyrir þær dagsetningar og hafi þegar verið greitt fyrir bókunina verður upphæðin dregin af næstu bókun eða bókunum.

Gestgjafar geta afbókað án gjalda eða neikvæðra afleiðinga, óháð þessum reglum, séu gildar ástæður fyrir því, svo sem vegna meiriháttar tjóns á eign. Gestgjöfum ber skylda til að fella niður bókun ef eign er óíbúðarhæf eða í ósamræmi við það sem gesturinn bókaði. Sé það ekki gert getur það leitt til þess að skráningin verði fjarlægð og að óloknar bókanir verði felldar niður og endurgreiddar gestum þar til eignin er er íbúðarhæf að nýju og í samræmi við skráningarlýsinguna. Sé það ekki gert telst það brot á grunnreglum okkar fyrir gestgjafa og gæti leitt til afleiðinga allt að fjarlægingu aðgangs.

Annað til að hafa í huga

Þessar reglur takmarka hvorki, né hafa áhrif á lagaleg réttindi þín og ákvarðanir Airbnb samkvæmt þessum reglum hafa ekki áhrif á lögbundin réttindi þín.

Reglur um gildar málsbætur

Tók gildi 20. janúar 2021

Yfirlit

Þessar reglur um gildar málsbætur útskýra meðhöndlun afbókana þegar ófyrirséðir atburðir, sem þú hefur ekki stjórn á, koma upp eftir að bókun er gerð og gera það ófært eða ólöglegt að ljúka bókuninni. Þessar reglur gilda um bókanir á gistingu sem og upplifunum.

Þegar þessar reglur heimila afbókun gilda þær í stað afbókunarreglu bókunarinnar. Gestir sem verða fyrir áhrifum af atburði sem fellur undir þessar reglur geta afbókað og fengið endurgreitt, eftir aðstæðum, í formi reiðufjár, ferðainneignar og/eða annars endurgjalds. Gestgjafar sem verða fyrir áhrifum af atburði sem fellur undir þessar reglur geta afbókað án neikvæðra afleiðinga en afbókaðar dagsetningar gætu verið teknar frá í dagatali skráningarinnar.

Atburðir sem falla undir reglurnar

Í þessum reglum vísar hugtakið „viðburður“ til eftirfarandi aðstæðna sem koma upp eftir bókun, eru ófyrirsjáanlegar þegar bókun er gerð og koma í veg fyrir, eða banna með lögum, að bókun sé lokið.

Breytingar á kröfum stjórnvalda um ferðalög. Óvæntar breytingar opinberra stofnana á kvöðum um vegabréfsáritanir eða vegabréf sem koma í veg fyrir að fólk komist á áfangastað sinn. Þetta á ekki við um týnd eða útrunnin ferðaskilríki eða aðrar persónulegar aðstæður sem tengjast heimild gests til að ferðast.

Yfirlýst neyðarástand og faraldrar. Staðbundið eða landlægt neyðarástand, faraldrar, heimsfaraldrar og neyðarástand fyrir lýðheilsu sem stjórnvöld lýsa yfir. Þetta á ekki við um sjúkdóma sem eru landlægir eða algengir á staðnum eins og t.d. mýrakalda í Taílandi eða beinbrunasótt í Havaí.

Ferðatakmarkanir stjórnvalda. Ferðatakmarkanir opinberra stofnana sem koma í veg fyrir eða banna að fólk komist á, dvelji eða komist aftur til baka frá staðnum þar sem skráða eignin er. Þetta nær ekki yfir ferðaráðleggingar og aðra opinbera leiðsögn sem er ekki bindandi.

Hernaðarbrölt og önnur átök. Stríðsárásir, átök, innrásir, borgarastyrjöld, hryðjuverkaárásir, sprengingar, sprengjuárásir, óeirðir og borgaraleg óreiða.

Náttúruhamfarir. Náttúruhamfarir, stórfelld bilun á nauðsynlegri veituþjónustu, eldgos, flóðbylgjur og aðrir alvarlegir og óeðlilegir veðuratburðir. Þetta á ekki við um veður eða náttúrulegar aðstæður sem eru nógu algengar til að vera fyrirsjáanlegar á þeim stað, til dæmis fellibyljir sem verða á fellibyljatímabilinu í Flórída.

Það sem fellur ekki undir reglurnar

Allt annað. Þessar reglur leyfa aðeins afbókanir vegna ofangreindra atburða. Allt annað er undanskilið. Dæmi um aðstæður sem þessar reglur leyfa ekki afbókanir eru vegna: Óvænts sjúkdóms, veikinda eða meiðsla, opinberra skyldna eins og kviðdómssetu, mætingar fyrir rétti eða hernaðarstarfa; ferðaráðlegginga eða annarra leiðbeininga stjórnvalda (sem eru vægari en ferðabann), afbókana eða breytinga á tímasetningu viðburðar sem bókunin er vegna og samgöngutruflana sem tengjast ekki atburðinum sem fellur undir reglurnar svo sem lokanir á vegum og afbókanir á flugi og ferðir með lestum, rútum eða ferjum. Ef þú hættir við bókun í þessum tilvikum miðast endurgreiðslan við afbókunarregluna sem gildir um bókunina.

Næstu skref

Ef við tilkynnum þér eða birtum upplýsingar sem staðfesta að þessar reglur gildi um bókunina þína skaltu fylgja leiðbeiningum frá okkur varðandi afbókun. Þegar við höfum tilkynnt þér eða birt upplýsingar um hvernig reglurnar eiga við ættir þú að geta afbókað samkvæmt þessum reglum með því að opna ferðasíðuna þína og fella þar niður bókunina sem varð fyrir áhrifum. Ef þú telur þessar reglur gilda um bókun þína en við höfum ekki tilkynnt þér eða birt upplýsingar um atburðinn skaltu hafa samband við okkur til að fella bókun þína niður. Þú ættir í öllum tilvikum að gera ráð fyrir að leggja fram gögn sem sýna hvernig atburðurinn hefur haft áhrif á þig eða bókunina þína.

Ef þú hefur einhverjar spurningar skaltu hafa samband við okkur.

Annað til að hafa í huga

Þessar reglur gilda um allar bókanir með innritun frá og með gildistökudegi.

Var þessi grein gagnleg?

Greinar um tengt efni

Fáðu aðstoð í tengslum við bókanir, aðganginn þinn og fleira.
Innskráning eða nýskráning